Leita í fréttum mbl.is

Heimskulegt tap

Enn eitt tapið í gær, 30-25 í Göppingen.  Það er nú enginn heimsendir að tapa fyrir Göppingen en það grátlega er hvernig við töpum.  Það eru ákveðnir menn í liðinu með slæmt tilfelli af ,,tunnel vision" í átt að markinu.  Oft var þrumað í þrefalda blokk Göppingen-manna í staðinn fyrir að gefa boltann áfram.  Glöggir menn sjá kannski að ef einn maður er með þrjá fyrir framan sig í blokk eru fimm félagar hans með hina þrjá varnarmennina sem eru eftir.  Í þá daga sem ég lærði sportið hefði það þótt ágætis staða.  Hún er þó vita gagnslaus ef boltinn er einhvers staðar annars staðar! En svona er þetta hérna, Þjóðverjar læra bara að skjóta fast og oft á meðan Norðurlandaþjóðirnar læra handbolta!  Það munu birtast hérna mun fleiri tuðgreinar um þetta mál í framtíðinni.

Annars er óþolandi ástand hérna núna eftir að þýskararnir urðu heimsmeistarar.  Auðviðtað er gaman fyrir þá og gott fyrir sportið að hafa unnið þetta en fyrir okkur hina fer þetta að verða þreytt.  Sjálfumgleði og ofmat á aukaleikurum í liðinu er strax orðið þreytt og líklega á það bara eftir að versna næstu vikurnar.  En maður verður víst að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti.

Gott mál er hins vegar að það er farið að sýna 3-5 leiki úr hverri umferð á netinu.  Hinn gríðarlegi sjónvarpssamningur sem deildin meldaði í haust reyndist vera netvarpssamningur þegar menn fóru að lesa hann.  Það breytir því þó ekki að nú getur maður séð haug af leikjum í beinni eða bara þegar manni hentar (on demand) fyrir ágætis verð.  Ef einhver hefur áhuga þá er slóðin www.hbl.tv og kostar öll seinni umferðin ekki nema rúmar 20 evrur.  Ef áhorfið verður gott á netinu er ekki ósennilegt að það verði í framtíðinni eitthvað af þessum leikjum í sjónvarpi.  Mér skilst að sjónvarpssamningar séu nú gerðir til þess!

 Kv. Veggurinn


Byrjum aftur...

Jæja, nú skal ég blogga eins og óður maður!  Eftir að hafa verið þvingaður til að blogga á www.ibliduogstridu.is hef ég fengið smá bakteríu fyrir þessu sem var ekki til fyrir. 

Það er þá kannski rétt að gera upp þessa blessaða mót sem við vorum á!  8. sætið er nú sosum í lagi en mikið helvíti hefði verið gaman að vinna þessa danadjöfsa!  Það sem er þó öllu mikilvægara er að ég bar sigur úr býtum í gúrkunni og er því óumdeildur heimsmeistari í því merka spili.  Sennilega hefur aldrei verið spilað jafn mikið og í ár en við vorum gróflega reiknað einn sólarhring í rútunni sem var þó ekki sú stærsta.  Heims-, Evrópu- og Ólympíumeistarinn Goggi varð í öðru sæti og herbergið okkar því klárlega langsterkasta herbergið.  Gleðilegt var líka að Fúsi varð áberandi neðstur!

Nú tekur bara daglegt streð við á ný.  Æfingaleikur við Heiðmar Felixson og vini hans í Burgdorf á morgun.  Það verður nú líklega gott að spila smá handbolta aftur eftir að hafa verið aðallega í ræktinni meðan á mótinu stóð.  Snorri Steinn fær frí á morgun sem er líklega eins gott svo hann brenni ekki út eftir 2-3 vikur.  Hausinn og skrokkurinn eru nú ekki í sem bestu standi eftir svona keyrslu eins og var á Snorra í mótinu!

Annars hef ég ekkert sérstakt fram að færa, ekki einu sinni góða lygasögu (allt sem ég skrifaði á www.ibliduogstridu.is gæti hafa gerst eins og ég greindi frá því).


Ennþá meiddur... helv...

Nú fer þetta að verða gott.  Í 2 vikur er ég búinn að dragast með rifinn magavöðva undir rifbeinunum og þetta virðist engan enda ætla að taka.  Í hvert skipti sem ég hlæ, hnerra, hósta eða öskra tekur í og þetta lagast ekkert.  Læknirinn okkar gróf djúpt í fræðin og sýndi að 10 ára námið var ekki til einskis þegar hann lýsti því hátíðlega yfir að ekkert væri hægt að gera því þetta er svo óaðgengilegt!!  Það er nú gott að hjartalæknar hugsa ekki svona.  Nú eru 5 dagar í leikinn við Grosswallstadt og fátt sem bendir til þess að ég verði klár, svona alla vega á meðan ég má ekki hlaupa.

Við fengum okkur aftur íslenskan fisk í kvöld og hann var jafnvel betri en síðast.  Sennilega er þetta nú að einhverju leyti í hausnum á mér en íslenskur fiskur er einfaldlega miklu betri en erlendur fiskur, og hananú!  Ég hef látið gabba oní mig fisk í ýmsum löndum og það er hreinlega ekki nógu sniðugt.  Bragðið er hreinlega annað svo ekki sé minnst á lyktina.  Rúnar Sigtryggsson sagði einu sinni við mig að Spánverjum fyndist ferskur (og þ.a.l. bragðgóður) fiskur ekkert góður enda ekki vanir honum.  Þar er fiskur gamall og er drekkt í olíu til að fela það.  Þá fer ég nú frekar á Makkann!

Ég var að horfa á Viltu vinna milljón áðan og þá rann upp fyrir mér sú sorglega staðreynd að sjónvarpsþættir ganga nánast aldrei á Íslandi til lengri tíma.  Þessi þáttur er til dæmis ennþá einn sá vinsælasti í Þýskalandi og gengur enn á Englandi og handan við pollinn.  Heima dó hann fyrir 3 árum.  Það virðast vera örlög nánast allra þátta í íslensku sjónvarpi.  Hemmi Gunn gekk nú reyndar nokkuð lengi en svo fór hann líka.  Spaugstofan er lífseig en þeir tóku sér líka pásu á milli.  Flest annað hverfur eftir 2-3 ár og virðast vinsældir engu máli skipta.  Það hefur verið lenska hjá mínum gömlu vinum á RÚV að skipta um dagskrá í heilu lagi reglulega og þá víkur allt.  Þetta helst er klassískt dæmi.  Það var þáttur með frábært áhorf en hann varð að fara af því það varð hreinlega að prófa eitthvað nýtt.  Svo eru óteljandi laugardagskvöldsþættirnir sem hafa reynt að fylla í skarð Hemma.  Nú, svo var Idolið eitt æðið.  Þjóðin nötraði í 3 ár en svo varð það að víkja af því X-faktor er svo fjári spennandi að það er ekki hægt að sleppa því.  Hvar eru Strákarnir í ár?  Man einhver eftir því að Gísli Marteinn var einu sinni í sjónvarpinu?  Hérna í Þýskalandi var í fyrra haldið upp á 40 ára afmæli Sport Studio.  40 ár!!!  Sá þáttur er á besta tíma á laugardagskvöldum í ríkissjónvarpinu.  Það langlífasta í íslensku sjónvarpi (fyrir utan Gettu betur og Stundina okkar) eru erlendir þættir enda hafa erlendar stöðvar ekki þann ávana að blása prógrömm af þegar vel gengur!  Hvað ætli Jón Ólafs fái að vera lengi í friði áður en það verður að prófa eitthvað nýtt?


Blessaður Mogginn

Hinn stórfenglegi íþróttavefur mbl.is heldur áfram að koma mér á óvart.  Ég hef setið órólegur í marga daga og beðið eftir ákveðinni frétt.  Fiðringur í maganum og svefnleysi hefur einkennt helgina hjá mér. Loksins er fréttin komin og sjálfsagt hefur allt verið á öðrum endanum á ritstjórn vefjarins.  ,,Félagsmenn í samtökum íslenskra ,,ofurmaraþonhlaupara" orðnir þrettán".  Nú get ég sofið rólegur í nótt.  Þetta er eiginlega dropinn sem fyllir mælinn hjá mér.  Íþróttavefur mbl.is er einhver versta mynd íslenskra fjölmiðla í dag.  Beinar þýðingar á hvaða smáfrétt sem er úr enska boltanum allan liðlangan daginn.  Þar á milli koma fréttir af hverju einasta höggi á hvaða golfmóti sem er og reglulegar tilkynningar um hvað sem er úr formúlunni.  Ekki það að ég hafi eitthvað á móti þessum greinum en öllu má nú ofgera!  Það virðist vera sem Morgunblaðið, þessi stoð íslenskra fjölmiða, sé virkilega með menn á launum við að kópera fréttir af erlendum fréttasíðum og þýða þær beint og birta á netinu.  Það er varla haft fyrir því að íslenska orðalag eða lesa þýðinguna yfir.  Þágufallsvillur eru algengar, enskt orðalag, innsláttarvillur og málfarsvillur daglegt brauð.  Ætli eitthvað sé lesið yfir þarna?  Svo læðist inn ein og ein innlend frétt eins og sú hér að ofan.  Ekki verið að spá mikið í innihaldið heldur fréttatilkynningin tekin og birt í heild sinni.  Þó er frétt sem halda mætti að væri innlend birt.  Þar kemur fram að Eggert Magnússon muni kaupa West Ham á mánudaginn.  Nei, og þó, fréttin er höfð eftir The Independent (slóðin á fréttina er: http://sport.independent.co.uk/football/premiership/article1993598.ece) og flokkast  þá í flokkinn ,,þýtt og birt".  Ekki hringja í Eggert og spyrja hann um málið.  Frekar bíða eftir að ensku blöðin gera það og taka það svo upp úr þeim og þýða það.  Þá þarf ekki að teygja sig í símann og vesenast við að finna númerið og svona.  Til að kóróna ruglið er fréttin tvisvar á síðunni, með mismunandi fyrirsögn!

Nýjasta fréttin á handboltahluta síðunnar er fréttatilkynning HSÍ um landsliðshóp kvenna.  Tekið úr faxinu og hent á netið. Sú frétt er frá því í fyrradag.  Þar á undan kom frétt um meiðsli Snorra Steins frá því í blaðinu á föstudaginn.  Þar á undan hálfleiksstaðan í leik Fylkis og Fram í bikarnum.  Þar hefur runnið æði á menn og eitthvað verið gert (sennilega lágu erlundu síðurnar niðri tímabundið).  Svo fylgja úrslit og markahæstu menn.  Úrslitaþjónusta!  Í körfuboltahlutanum er svipuð staða.  Úrslit úr leik frá því á föstudag og sitgahæstu menn.  Svo kemur slatti af NBA deildinni því það er miklu einfaldara að kópera og þýða en að leita að einhverju fréttnæmu á Íslandi.  Hins vegar er frétt á forsíðunni um að Sörenstam hafi ekki komist í gegnum niðurskurðinn á lokamóti LPGA mótaraðarinnar ásamt stöðunni í mótinu og upplýsingum um hverjar duttu út.  Ætli síminn hafi logað á ritstjórninni með bónum um að koma með þessar upplýsingar, eða er þetta bara minni vinna en að þurfa að leita að fréttum?  Það þykir kannski ekki í frásögur færandi að Valur vann Hauka í háspennuleik að Ásvöllum í gær í handboltanum?  Eða að Bayern Munchen vann Stuttgart í þýska fótboltanum?  Eða að Sevilla komst á toppinn í spænska fótboltanum í gær?  Eða hafa fréttamennirnir sjálfir engan áhuga á þessum fréttum og setja þær þess vegna ekki á netið?  Getur það verið?  Er metnaðurinn enginn til að halda úti fréttavef sem virkilega er með fréttir en ekki úrslitaþjónuustu?  Ætli það séu til tölur um lestur á þessu öllu saman?  Veit einhver hvort þær þúsundir Íslendinga sem spila golf hafi minnsta áhuga á að vita hvort Sörenstam hafi komist áfram eða ekki?  Það virðist alla vega spila stærri rullu hjá mbl.is en íslenskur handbolti, sem er nú eftir sem áður eina sportið sem við getum eitthvað í!

 

P.S. ég geri mér grein fyrir kaldhæðninni í því að nota blogg mbl.is til að úthúða mbl.is!

 


Fyrsta bloggið

Jæja, þá hef ég gengið í flokk bloggara.  Hlaut ekki að enda með þessu?  Ég hef alltaf haft gaman af því að nöldra og núna get ég gert það og deilt því með hverjum þeim sem kærir sig um að lesa!  Njótið heil!

Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Höfundur

Einar Örn Jónsson
Einar Örn Jónsson
Handboltamaður hjá GWD Minden í Þýskalandi. Giftur Birnu Ósk Hansdóttur með hverri hann á soninn Agnar Daða.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband