Leita í fréttum mbl.is

Hættuleg heimsókn

Við hjónin fengum hættulega heimsókn í gærkvöldi.  Við vorum úti á plani að reyna að troða ruslinu okkar í fingurbjörgina sem er ruslatunnan okkar (þar rúmast vikuskammtur af rusli en að er bara tæmt mánaðarlega) þegar ég heyrði hroðalegt urr fyrir aftan okkur.  Var þar kominn Dobermanhundur á stærð við meðalfíl!  Ég horfðist í augu við skrýmslið í andartak og stökk svo af stað til að hemja það.  Eftir stutt átök kom ég höggi á hann milli fótanna og lagði skepnan þá á flótta.  Þannig hljómar að minnsta kosti opinbera útgáfan og ég hvika hvergi frá henni.  Birna vill hins vegar meina að eigandi tröllsins hafi blístrað létt og kallað: "Helmut, komm hier!" en henni var svo brugðið við átökin að ekki er mark á henni takandi

Fyrst ég er farinn að tala um Birnu þá er rétt að fræða almenning um stöðuna í Trivial Pursuit.  Við fengum nýja útgáfu af því göfuga spili um jólin og byrjuðum í þessari viku að spila og eftir fimm spil er staðan 5-0 fyrir mig.  Það kemur nú svosem ekkert á óvart því ég var líka ósigrandi í gamla spilinu, svo ekki sé minnst á Star Wars Trivial Pursuit spilið mitt.  Það vill reyndar enginn spila það við mig lengur enda þarf töluverða þekkingu á helgifræði Star Wars til að fá eitt einasta svar rétt.

Birna virðist reyndar vera í slæmu jafnvægi þessa dagana eftir spilamennskuna því eftir síðasta tapið reyndi hún að grýta mig með ýmsu lauslegu.  Fyrst kom teningurinn og hennar kubbar, svo nokkur spurningaspjöld og svo kórónaði hún æðið með spjaldinu sjálfu!  Hún segist hafa misst það og ekki ætlað að henda því en ég sá glampann í augum hennar.  Hann var ekki ólíkur froðufellandi bræðisglampanum í augum Dobermannsins í gær.  Núna þegar ég hugsa um það þá hefur hún sennilega leigt hundinn til að koma og ganga frá mér.  Þegar hún sá svo að ég réði fyllilega við monsterið þá notaði hún fyrirfram ákveðið blístur til að senda hann í burtu og sagði svo að ég hefði ímyndað mér átökin!!!  Köld eru sannarlega kvennaráð! 

Í framtíðinni mun ég ganga með rafmagnskylfu í rassvasanum til að fæla frá óargadýr og kannski reyna að tapa einu sinni í Trivial áður en Birna laumar Kóbraslöngu undir sængina mína!

 

Veggurinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Örn Jónsson
Einar Örn Jónsson
Handboltamaður hjá GWD Minden í Þýskalandi. Giftur Birnu Ósk Hansdóttur með hverri hann á soninn Agnar Daða.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband