Leita í fréttum mbl.is

Fjölgun í Minden

Jæja, þá er konan búin að gjóta.  Stærðar stúlka fæddist á laugardaginn var (kl. 03:55) og reyndist vera 4520 grömm og 57 sentimetrar.  Öllum heilsast vel.
Þessi viðburður virðist hafa slegið saman einhverjum vírum hjá mér því mig hefur gripið gríðarleg bloggþörf sem hefur ekki verið að angra mig síðast árið.  Það gæti líka verið veðrið sem veldur þessu!
Ég hef þó ekkert áhugavert að blogga um enda nýjasti meðlimurinn átt hug minn allan síðustu dagana.  Þó gæti verið að ef góðri hugmynd skýtur niður í kollinn á mér muni ég deila henni með heiminum. Ég lofa þó engu!

Kv. Veggurinn IMG_0690


Viggó tekinn aftur við... eða hvað?

Þá er Viggó Sigurðsson tekinn aftur við Haukunum.  Stefnan er að bjarga mínu gamla félagi frá falli og hefur Viggó fjóra leiki til stefnu.  Gott mál, segi ég.  Ég var að flakka á helstu íþróttafréttasíðum áðan til að sjá eitthvað viðtal við kallinn.  Fann eitt á visir.is og kíkti á það.  Það reyndist vera eitt allra slakasta viðtal sem ég hef lengi séð.  Það hófst á spurningu um af hverju Viggó tæki þetta að sér. Gott og vel.  Svo kom 90° beygja og spurning um hvort Viggó hafi fengið aðrar fyrirspurnir sem kom málinu svo sem ekkert við að svo stöddu.  Svo kom spurning um hvort Viggó myndi halda áfram með liðið eftir þessa fjóra leiki sem er furðulegt í ljósi þess að Viggó var nýbúinn að segja að þetta væri bundið við þessa leiki og löngu ljóst að Aron Kristjánsson tekur við liðinu á næsta tímabili.  Svo kom spurning sem tengist spurningu 2 um hvort Viggó væri í einhverju sambandi við Flensburg um áframhaldandi samstarf þar á bæ.  Vaðið úr einu í annað án þess að fylgja eftir svörum Viggó sem voru áhugaverð.  Það hefði t.d. ekki verið vitlaust að spyrja hverju Viggó gæti breytt í fjórum leikjum og hverju hann vildi breyta hjá Haukum.  Eða hvernig honum fyndist að verða "aðstoðarmaður" Páls, sem var aðstoðarþjálfari hjá Viggó þegar allt gekk vel í Firðinum.  Verður Viggó kannski aðalmaðurinn og Páll honum til aðstoðar?  Þetta fannst spyrlinum ekki vera áhugavert og spurði í staðinn um hvort eitthvað annað hefði verið í stöðunni hjá Viggó!!  Spurningin um Flensburg átti alveg rétt á sér í lok viðtalsins en svar Viggó um að samstarf þar væri ekki útilokað hefði alveg mátt ýta á eftir.  Er hann að taka við liðinu aftur?  Tímabundið? Til frambúðar?  Ætli ég verði ekki að hringja í hann sjálfur til að fá svar við þessum spurningum.  Eitt veit ég þó eftir þetta viðtal: Aron tekur við Haukum á næsta tímabili!  Það vita það raunar allir enda var það í öllum fjölmiðlum fyrir mánuði síðan!

Kv. Veggurinn


Svikamylla

Nú er ég brjálaður! 

Ég var að komast að því að það er hægt að fá Cocoa Puffs í Þýskalandi.  Eftir ítarlegar rannsóknir komst ég að því að Nestlé Nesquik morgunkornið er í rauninni Cocoa Puffs!  Byrjum á byrjuninni:

Það var sumsé keyptur pakki af Nestlé Nesquik sem helgarmorgunmatur fyrir Agnar Daða.  Hann hélt fast við það að hann hefði fengið Cocoa Puffs en ég var fullviss um að þetta væri enn ein slæm eftirlíkingin af besta morgunkorni í heimi.  Ég ákvað þó að prófa þetta svona til að vera viss, og viti menn, ég fann engan mun!  Af því ég hef nú rúman frítíma ákvað ég að athuga málið (svo ég gæti nú sofið rólegur).  Ég komst að því að Cocoa Puffs er selt í Suður-Ameríku undir Nestlé merkinu.  Svo komst ég að því að í Evrópu er Nestlé Nesquik framleitt af Cereal Partners Worldwide sem er í eigu General Mills sem framleiðir Cocoa Puffs í Bandaríkjunum.  Nestlé Nesquik er Cocoa Puffs!!!!!

Þetta gladdi mig óheyrilega því þrátt fyrir það að ég hafi varla borðað Cocoa Puffs í 10 ár nema þegar ég var á Íslandi í fríi þá hafði það pirrað mig að geta ekki fengið það í Evrópu.  Svona furðulegt pirr því mér er eiginlega illa við svona sykurdrullu í morgunmat.  Ég þekki hins vegar til rétthentra hornamanna í Gummersbach sem hafa látið flytja til sín Cocoa Puffs í tonnatali í mörg ár með tilheyrandi kostnaði.  Nú fyrirgefur hann mér loksins að hafa bundið hann við stól á Karókíbar í Köln eða að hafa sungið Celine Dion fyrir hann (það fyrirgef ég sjálfum mér samt aldrei). 
Ég er samt fúll út í alla þá snillinga sem hafa búið endalaust í Evrópu og aldrei komist að þessu og látið mig vita!  Til hvers er eiginlega utanríkisþjónustan okkar?  Hvern andskotann er Siggi Hall alltaf að gera á flakki um Evrópu án þess að uppgötva þetta?  Jæja, það gleður mig samt að hafa uppgötvað þetta.  Ég efast samt um að ég byrji aftur að borða þetta, en vitneskjan hvetur mig samt líklega til frekari rannsóknarmennsku á morgunkorni í Evrópu.  Næst: hver stendur á bak við samsærið um að fela Cheerio's Honey Nut fyrir mér?

Annað mál: hvernig stendur á því að það tók 4 ár að koma frumvarpi um afnám fyrningarfrests í kynferðisbrotamálum gegn börnum í gegnum Alþingi?  Ég á nú að heita stjórnmálafræðingur en ég fæ mig ekki til að sjá neina skynsamlega ástæðu fyrir því að fella málið.  Ég er kannski að missa af einhverju í málinu.  Var nokkuð grein í frumvarpinu um lögleiðslu heróíns?  Eða afnám tjáningarfrelsis?  Ætli þetta tvinnist saman við Honey Nut samsærið?

Kv. Veggurinn


Sumarið er tíminn

Nú er vor í lofti í Minden! 18° og heiðskírt. Familían úti í garði og ég inni í tölvunni. Svona ísbirnir eins og ég þola ekki lengi við í sólinni. Ég skellti mér á kassann áðan og steinsofnaði í sólinni.  Að öllum líkindum mun ég eiga sársaukafulla æfingu á eftir þegar menn fara að lemja í sólbrunann minn! Ég hlakka til.

Eins og sönnum Íslendingi sæmir ætla ég mér að grilla á eftir.  Þjóðverjar eru þannig að þeir grilla ekkert í mars. Það er ekkert grillað í mars, sama þó það sé 25° hiti! Ég ætla samt að slá til og það verður að hafa það þó nágrannarnir líti mig hornauga fyrir vikið.

Segjum það í bili, ég ætla að skella mér í sólina í smástund áður en ég fer á æfingu, það er útihlaup og gufa á dagskránni í dag.  Ég sleppi samt sennilega gufunni, það er ekki alveg nauðsynlegt í svona góðu veðri að læsa sig inni í 6 fermetra klefa sem er 90° heitur!

Kv. Veggurinn


Íþróttir og ofbeldi - frh.

Í ljósi athugasemda við síðasta pistil finnst mér skylt að taka eftirfarandi fram:

Bara svo það sé á hreinu þá er ég ekki að tala um að handbolti sé eitthvað minna grófur eða ofbeldisfullur en fótbolti, síður en svo.  

Það sem ég á fyrst og fremst við er að fótboltamenn (frekar en aðrir boltamenn) virðast svo oft grípa til heimskulegs ofbeldis á tímapunktum í leiknum þegar boltinn er ekki í leik eða búið er að flauta.  Þegar öll augu eru á þeim og engin eiginleg barátta "um boltann" er til staðar.  Það er bara vaðið af stað og ráðist á andstæðinginn í bræði, samanber dæmin í síðasta pistli.  Það er ekkert verið að bíða eftir góðu tækifæri til að "hefna" í leiknum sjálfum heldur er bara vaðið af stað - sem svo aftur gefur að sjálfsögðu af sér refsingu í formi brottvikningar eða banns.  Mér sýnist þessi atvik vera algengari meðal fótboltamanna heldur en t.d. í hand- og körfubolta (sem eru jú meiri kontakt íþróttir).  Ég verð síðastur manna til að reyna að halda því fram að handbolti sé saklaus íþrótt án barsmíða.  Málið er bara það að þar er leikurinn sjálfur nýttur til handalögmála og menn reyna að brjóta og "hefna" þegar dómarinn sér ekki til!  Höggin látin vaða en í formi varnarafbrigðis eða léttrar sóknarfléttu.  Menn reyna að vera klókir þegar þeir brjóta á andstæðingnum.  Um það snýst munurinn.

Kv. Veggurinn


Íþróttir og ofbeldi

Af hverju eru fótboltamenn svona ofbeldisfullir?  Þeir virðast alltaf vera að láta reka sig út af fyrir að kýla, skalla eða sparka í menn beint í kjölfar brots á þeim sjálfum.  Það er fyrir það fyrsta ekkert afskaplega sniðugt að gera ofangreint við aðra menn en í miðjum fótboltaleik er það arfaheimska.  Fótboltamenn eru nú svo sem ekkert annálaðir fyrir ofurgreind en það er einfaldlega hluti af því að vera góður í fótbolta að fá ekki rautt spjald fyrir fávitaskap og leikbann í kjölfarið.

Ég fór að velta þessu fyrir mér áðan eftir að Paul Scholes reyndi að kýla Xabi Alonso og fékk snarlega rautt í kjölfarið.  Það kostar hann 3 leiki í bann á krítísku mómenti á tímabilinu.  Frábærlega sniðugt hjá honum.  Um síðustu helgi fékk Lincoln hjá Schalke 5 leikja bann fyrir að kýla Bernd Schneider í grímuna, eftir leik sem Schalke tapaði.  Í ljósi þess að hann er leikstjórnandi liðsins og þeir eru í góðri stöðu með að tryggja sér fyrsta meistaratitilinn í 50 ár er engin rífandi lukka með þetta hjá þjálfaranum.  Enda var Schalke hvorki haus né sporður á móti HSV í gær án Lincoln.  Svo eru það slagsmálin i Cardiff um síðustu helgi og svo og svo og svo!  Vonandi er enginn búinn að gleyma þessum Frakka (Alsíringi?) sem skeit á feril sinn í kveðjuleiknum í sumar.  Það var nú úrslitaleikur HM.

Þá komum við að upphaflegu spurningunni: Af hverju eru fótboltamenn svona ofbeldisfullir?  Ekki sér maður svona í handbolta.  Af og til í körfubolta og þá aðallega í NBA og gjarnan taka þá allir leikmenn þátt.  Hvað veldur því að fótboltamenn, frekar en leikmenn í öðrum greinum eru alltaf að missa sig og hefna sín á einhverjum sem pirrar þá eða var að brjóta á þeim?  Er það kannski af því handboltamenn vita að þeir geta, og gera reglulega, yfirleitt hefnt sín hressilega næst þegar þeir fara í vörn?  Fá þá tvær mínútur (eða jafnvel ekki) og öllum er sama.  Fótboltamenn geta það nú líka án teljandi vandræða.  Það er allt annað að brjóta illa á manni með boltann en að skalla hann þegar búið er að flauta eða boltinn löngu farinn.  Munurinn er gult eða rautt spjald.  Eru fótboltamenn bara svona illa stilltir að þeir verða að kýla einhvern sem potar í þá og það ekki seinna en samstundis?  Maður hefur nú heyrt margt verra sagt í leikjum en Materazzi á að hafa sagt við Zidane í sumar.  Samt hef ég aldrei séð neinn nema fótboltamann skalla andstæðing í bringuna.

Menn eru alltaf fljótir til að stimpla fótboltabullurnar sem fávita sem skemma fyrir hinum og hafa ekkert með fótbolta að gera.  Hérna í Þýskalandi eru þeir einfaldlega kallaðir hálfvitar í fréttatímum ríkissjónvarpsins.  Enginn kallar þó Lincoln, Zidane, Scholes og alla hina hálfvita opinberlega en þeir skemma þó miklu meira fyrir liðinu og þar af leiðandi áhorfendum sem leggja drjúgan hluta lúsalauna sinna í að elta liðin um allt.  Svo fá þeir milljónir evra og punda fyrir.  Við handboltamenn höfum í rauninni miklu meiri ástæðu til að rasa út.  Við fáum ekki nógu vel borgað til að taka því þegjandi ef einhver pirrar mann endalaust eða brýtur illa á manni.  Fyrir milljón evrur á ári myndi ég jafnvel hlæja ef einhver hrækti á mig í leik.

Kv. Veggurinn


Gleðilegan bjórdag

Ég óska sjálfum mér og öðru drykkjufólki til hamingju með bjórdaginn í dag.  Ég reyndi að útskýra mikilvægi þessa dags fyrir Þjóðverjunum í gær og þeir horfðu á mig eins og ég væri geimvera.  Þeir líta á Ísland sem furðuríki sem ætti sennilega að vera á öðrum hnetti fyrir að hafa ekki leyft bjór fyrr en fyrir 18 árum.  Þetta lagaðist þó aðeins þegar ég sannfærði þá um að landar mínir hefðu lagt sig alla fram við að vinna upp tapaðan tíma frá 1989.

Það skyggir þó á gleði mína í dag að Arsenal tapaði í gær fyrir Blackburn.  Það er náttúrulega agalegt að vera Arsenalmaður þetta árið.  Á milli þess sem við vinnum á Anfield og Old Trafford töpum við fyrir Bolton og Blackburn.  Það er eins hollt að það séu betri tímar framundan því annars verð ég að slá á þráðinn til Wenger og lesa honum pistilinn (þessi pistill væri til dæmis kjörinn: http://sigmarg.blog.is/blog/sigmarg/entry/134988/).

Fyrst ég er farinn að tala um fótbolta þá er hér skemmtileg saga úr þýsku pressunni.  Gerald Asamoah, þýskur landsliðsmaður, var nappaður á Bensinum sínum í fyrradag á 190 kílómetra hraða þar sem 80 er leyfilegt.  Ástæða hans var sú að konan hans var um það bil að fæða tvíbura þeirra hjóna á nærliggjandi sjúkrahúsi.  Lögreglan tók því með rólegheitum og tjáði Asamoah að reyna ekkert svona trikk, þetta segði annar hver maður.  Eftir að hafa haldið honum við skriffinnsku í 20 mínútur eða svo fékk hann að halda áfam, á 80 kílómetra hraða og rétt náði hann á staðinn áður en tvíburarnir fæddust.  Mér fannst þetta aðallega fyndið af því þetta minnir mig á söguna af fyrsta landsleiknum hans Ragnars Óskarssonar.  Það var æfingaleikur á móti Finnum í Smáranum þegar Tobbi Jens var þjálfari.  Raggi mætti vel tímanlega, enda fyrsti leikurinn framundan.  Þegar hann var að ganga inn í húsið með íþróttatöskuna á öxlinni kallar húsvörðurinn: ,,Abbabbabb, hvert þykist þú vera að fara?"  Ragnar sagði sem væri og hélt áfram í átt að klefaganginum.  ,,Já, nei, nei, þú tekur ekkert gamla töskutrikkið hérna, vinur.  Þú verður að borga eins og aðrir!"  Húsvörðurinn lét mótmæli Ragga sem vind um eyru þjóta og dró hann öskrandi frá hurðinni.  Ragga varð það til happs að gamall reynslubolti úr liðinu mætti til leiks þegar hér var komið við sögu.  Húsvörðurinn hlustaði reyndar ekkert á fortölur hans en Raggi gat fengið hann til að fara og ná vinsamlegast í þjálfarann svo Raggi yrði nú ekki of seinn í fyrsta leikinn.  Tobbi þurfti því að koma fram og ná í kjúklinginn sem var ekki hleypt inn í húsið.  Síðan þá hefur Raggi sagst vera blaðamaður þegar einhver stoppar hann á leið inn í íþróttahús!

Kv. Veggurinn


Óskarinn

Maður píndi sig í Óskar frænda í nótt, jafnvel þó hann hafi staðið vel fram yfir 6 í nótt.  Það var nú ekki svo slæmt meðan á því stóð en öllu verra þegar ég fór á lappir klukkan 9 til að fara á æfingu.  Það var nú enginn glans á manni á æfingunni.  Athöfnin var nú með léttara móti í ár, ekki svona halelúja-samkoma eins og oft vill verða.  Hver man ekki eftir því þegar Akademían ákvað að bæta fyrir að hafa litið framhjá svörtum leikurum í 75 ár með því að verðlauna bara svarta leikara fyrir skömmu síðan.  Þá grétu allir saman og hörmuðu þá svörtu leikara sem var fallnir frá og gátu ekki fengið verðlaun.  Þetta var á léttari nótum í nótt, meira að segja Al Gore reytti af sér brandara en heimildamyndin um hann, An Inconvenient Truth, var valin besta heimildamyndin. 

Svo fékk nú Martin Scorsese loksins Óskarinn sinn.  Þetta var farið að lykta af einhverju samsæri hjá Akademíunni um að verðlauna ekki besta núlifandi leikstjórann.  Hann hefði náttúrulega átt að hirða styttuna nokkrum sinnum síðustu 30 árin og þó hann hafi fengið þetta núna breytir því ekki að það var gengið framhjá honum oftar en ég kæri mig um að nefna.  Mean Streets, Taxi Driver, Raging Bull, The Last Temptation of Christ, Cape Fear, Goodfellas og Casino eru myndir sem allir leikstjórar væru stoltir af að hafa gert.  Ef maður ber þetta svo saman við það að trúðurinn Ron Howard fékk Óskar fyrir A Beautiful Mind þá er farsinn fullkomnaður.

Gleðilegt líka að Forest Whitaker hafi unnið.  Karakterinn hans að þessu sinni, mannætan Idi Amin, er ekki jafn stórfenglega skemmtilegur og uppáhaldskarakterinn minn frá honum, Pfc Eddie Garlick, úr Good Morning Vietnam.  Þar náði hann meira að segja að skyggja á Robin Williams í nokkrum senum.

Öllu verra er síðan að Snorri Steinn er að fara frá Minden.  Persónulega er mér skítsama enda Snorri leiðindagaur sem sendir alltof sjaldan í hægra hornið en fyrir liðið er þetta slæmt mál.  Það verður gaman að sjá hvað hann gerir í Danmörku því ef hann er einn af bestu miðjumönnunum í Bundesligunni verður hann líklega sá besti í Danmörku... ef hann sendir meira í hægra hornið!!!!  Ég hugsa að Snorri sé strax farinn að hlakka til að flytja, sérstaklega í ljósi þess að við eyddum gærmorgninum (sunnudegi) í að hlaupa í drullusvaði upp á mitti í mígandi rigningu í 75 mínútur!  Það er ekki alveg eins og ég kæri mig um að eyða sunnudagsmorgni, sérstaklega ekki þegar það er ekki leikur fyrr en á föstudaginn.  En svona er þýski handboltaheilinn; hlaupa nógu helvíti mikið úti og skjóta svo fast og oft á markið og þá verður allt gott.  Það kemur því ekkert sérstaklega á óvart að af efstu 7 liðunum í deildinni er aðeins eitt með þýskan þjálfara (sem lærði náttúrulega allt sem hann kann af mér þegar hann þjálfaði mig í Wallau).  Af 8 neðstu liðunum eru síðan 6 með þýska þjálfara og spila harakiribolta; eitt lítið kerfi spilað til að fleiri menn nái að svitna og svo skýtur sá sem er fyrstur að sjá markið.  Nú er ég orðinn pirraður, ekki síst af því ég þarf að fara að leggja í hann á æfingu og ég var að koma heim af þeirri síðustu!

Kv. Veggurinn


Veikindi og Þjóðverjar!

Nú er það svart!  Ég er með hita og flensu sem þýðir í Þýskalandi að dauðinn er yfirvofandi!  Ég var hið snarasta sendur til læknis eftir að dauðasóttin lét á sér kræla í gær og hann setti mig á pensillín og aspirín.  Svo beint í rúmið með haug af vatni og ekki hreyfa mig í nokkrar vikur.  Mér líður nú reyndar betur en svo gerði ég þau mistök að lesa staðarblaðið á netinu áðan.  Þar fékk ég nefnilega að vita að ég muni ekki spila á móti Hamburg á morgun vegna veikinda af því að það sé leikur á föstudaginn eftir viku sem er miklu mikilvægari.  Þjálfarinn vill nefnilega ekki taka neina áhættu og lenda í því að ég verði veikur fram eftir vori!  Það finnst mér nú ansi langt gengið.  Það er nú ekki eins og ég sé með ebólavírus eða hermannaveiki.  En svona eru Þjóðverjarnir þegar flensu ber á góma.  Ef einhver hnerrar á æfingu þá á hann sóttkví vísa og ef einhver fær hita þá er lyfjaskápurinn opnaður upp á gátt.  Ég er nú svosem ekki hissa, helst held ég að þjálfarinn væri til í gefa leikinn og koma í veg fyrir að nokkur meiðist við að spila hann.  Það býst nefnilega enginn við sigri í Hamburg og við eigum leik við Balingen í næstu viku sem er hörku fallslagur.  Leikurinn á morgun er eiginlega bara óþarfa áhætta í augum þjálfarans!

Agnar Daði átti góðan punkt um daginn.  Honum er nefnilega boðið í afmæli hjá Jannick Luca vini sínum í næstu viku.  Þegar mamma hans spurði hann hvað hann vildi gefa í afmælisgjöf var hann ekki lengi að svara: Hjól, eða trommusett eða píanó!  Þegar hann var svo spurður hvort hann ætti peninga fyrir þessum gjöfum svaraði sá stutti snarlega að pabbi myndir bara fara og vinna smá til að borga þetta!  Svona eru börnin nú lógísk!


Hættuleg heimsókn

Við hjónin fengum hættulega heimsókn í gærkvöldi.  Við vorum úti á plani að reyna að troða ruslinu okkar í fingurbjörgina sem er ruslatunnan okkar (þar rúmast vikuskammtur af rusli en að er bara tæmt mánaðarlega) þegar ég heyrði hroðalegt urr fyrir aftan okkur.  Var þar kominn Dobermanhundur á stærð við meðalfíl!  Ég horfðist í augu við skrýmslið í andartak og stökk svo af stað til að hemja það.  Eftir stutt átök kom ég höggi á hann milli fótanna og lagði skepnan þá á flótta.  Þannig hljómar að minnsta kosti opinbera útgáfan og ég hvika hvergi frá henni.  Birna vill hins vegar meina að eigandi tröllsins hafi blístrað létt og kallað: "Helmut, komm hier!" en henni var svo brugðið við átökin að ekki er mark á henni takandi

Fyrst ég er farinn að tala um Birnu þá er rétt að fræða almenning um stöðuna í Trivial Pursuit.  Við fengum nýja útgáfu af því göfuga spili um jólin og byrjuðum í þessari viku að spila og eftir fimm spil er staðan 5-0 fyrir mig.  Það kemur nú svosem ekkert á óvart því ég var líka ósigrandi í gamla spilinu, svo ekki sé minnst á Star Wars Trivial Pursuit spilið mitt.  Það vill reyndar enginn spila það við mig lengur enda þarf töluverða þekkingu á helgifræði Star Wars til að fá eitt einasta svar rétt.

Birna virðist reyndar vera í slæmu jafnvægi þessa dagana eftir spilamennskuna því eftir síðasta tapið reyndi hún að grýta mig með ýmsu lauslegu.  Fyrst kom teningurinn og hennar kubbar, svo nokkur spurningaspjöld og svo kórónaði hún æðið með spjaldinu sjálfu!  Hún segist hafa misst það og ekki ætlað að henda því en ég sá glampann í augum hennar.  Hann var ekki ólíkur froðufellandi bræðisglampanum í augum Dobermannsins í gær.  Núna þegar ég hugsa um það þá hefur hún sennilega leigt hundinn til að koma og ganga frá mér.  Þegar hún sá svo að ég réði fyllilega við monsterið þá notaði hún fyrirfram ákveðið blístur til að senda hann í burtu og sagði svo að ég hefði ímyndað mér átökin!!!  Köld eru sannarlega kvennaráð! 

Í framtíðinni mun ég ganga með rafmagnskylfu í rassvasanum til að fæla frá óargadýr og kannski reyna að tapa einu sinni í Trivial áður en Birna laumar Kóbraslöngu undir sængina mína!

 

Veggurinn


Næsta síða »

Höfundur

Einar Örn Jónsson
Einar Örn Jónsson
Handboltamaður hjá GWD Minden í Þýskalandi. Giftur Birnu Ósk Hansdóttur með hverri hann á soninn Agnar Daða.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband