26.2.2007 | 12:25
Óskarinn
Maður píndi sig í Óskar frænda í nótt, jafnvel þó hann hafi staðið vel fram yfir 6 í nótt. Það var nú ekki svo slæmt meðan á því stóð en öllu verra þegar ég fór á lappir klukkan 9 til að fara á æfingu. Það var nú enginn glans á manni á æfingunni. Athöfnin var nú með léttara móti í ár, ekki svona halelúja-samkoma eins og oft vill verða. Hver man ekki eftir því þegar Akademían ákvað að bæta fyrir að hafa litið framhjá svörtum leikurum í 75 ár með því að verðlauna bara svarta leikara fyrir skömmu síðan. Þá grétu allir saman og hörmuðu þá svörtu leikara sem var fallnir frá og gátu ekki fengið verðlaun. Þetta var á léttari nótum í nótt, meira að segja Al Gore reytti af sér brandara en heimildamyndin um hann, An Inconvenient Truth, var valin besta heimildamyndin.
Svo fékk nú Martin Scorsese loksins Óskarinn sinn. Þetta var farið að lykta af einhverju samsæri hjá Akademíunni um að verðlauna ekki besta núlifandi leikstjórann. Hann hefði náttúrulega átt að hirða styttuna nokkrum sinnum síðustu 30 árin og þó hann hafi fengið þetta núna breytir því ekki að það var gengið framhjá honum oftar en ég kæri mig um að nefna. Mean Streets, Taxi Driver, Raging Bull, The Last Temptation of Christ, Cape Fear, Goodfellas og Casino eru myndir sem allir leikstjórar væru stoltir af að hafa gert. Ef maður ber þetta svo saman við það að trúðurinn Ron Howard fékk Óskar fyrir A Beautiful Mind þá er farsinn fullkomnaður.
Gleðilegt líka að Forest Whitaker hafi unnið. Karakterinn hans að þessu sinni, mannætan Idi Amin, er ekki jafn stórfenglega skemmtilegur og uppáhaldskarakterinn minn frá honum, Pfc Eddie Garlick, úr Good Morning Vietnam. Þar náði hann meira að segja að skyggja á Robin Williams í nokkrum senum.
Öllu verra er síðan að Snorri Steinn er að fara frá Minden. Persónulega er mér skítsama enda Snorri leiðindagaur sem sendir alltof sjaldan í hægra hornið en fyrir liðið er þetta slæmt mál. Það verður gaman að sjá hvað hann gerir í Danmörku því ef hann er einn af bestu miðjumönnunum í Bundesligunni verður hann líklega sá besti í Danmörku... ef hann sendir meira í hægra hornið!!!! Ég hugsa að Snorri sé strax farinn að hlakka til að flytja, sérstaklega í ljósi þess að við eyddum gærmorgninum (sunnudegi) í að hlaupa í drullusvaði upp á mitti í mígandi rigningu í 75 mínútur! Það er ekki alveg eins og ég kæri mig um að eyða sunnudagsmorgni, sérstaklega ekki þegar það er ekki leikur fyrr en á föstudaginn. En svona er þýski handboltaheilinn; hlaupa nógu helvíti mikið úti og skjóta svo fast og oft á markið og þá verður allt gott. Það kemur því ekkert sérstaklega á óvart að af efstu 7 liðunum í deildinni er aðeins eitt með þýskan þjálfara (sem lærði náttúrulega allt sem hann kann af mér þegar hann þjálfaði mig í Wallau). Af 8 neðstu liðunum eru síðan 6 með þýska þjálfara og spila harakiribolta; eitt lítið kerfi spilað til að fleiri menn nái að svitna og svo skýtur sá sem er fyrstur að sjá markið. Nú er ég orðinn pirraður, ekki síst af því ég þarf að fara að leggja í hann á æfingu og ég var að koma heim af þeirri síðustu!
Kv. Veggurinn
Tenglar
Áhugavert dót
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Held að það sé nú skárra að sitja með koníaksglas við hönd og þurfa ekki að hafa áhyggjur af leiðinlegum æfingum daginn eftir. Mæta svo bara í ræktina þegar manni hentar.
Þú valdir þetta svo hættu þessu væli
p.s.
ég æfi ekki handbolta lengur, mæti bara í leikina
Davíð Örn Ólafsson, 27.2.2007 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.