Leita í fréttum mbl.is

Blessaður Mogginn

Hinn stórfenglegi íþróttavefur mbl.is heldur áfram að koma mér á óvart.  Ég hef setið órólegur í marga daga og beðið eftir ákveðinni frétt.  Fiðringur í maganum og svefnleysi hefur einkennt helgina hjá mér. Loksins er fréttin komin og sjálfsagt hefur allt verið á öðrum endanum á ritstjórn vefjarins.  ,,Félagsmenn í samtökum íslenskra ,,ofurmaraþonhlaupara" orðnir þrettán".  Nú get ég sofið rólegur í nótt.  Þetta er eiginlega dropinn sem fyllir mælinn hjá mér.  Íþróttavefur mbl.is er einhver versta mynd íslenskra fjölmiðla í dag.  Beinar þýðingar á hvaða smáfrétt sem er úr enska boltanum allan liðlangan daginn.  Þar á milli koma fréttir af hverju einasta höggi á hvaða golfmóti sem er og reglulegar tilkynningar um hvað sem er úr formúlunni.  Ekki það að ég hafi eitthvað á móti þessum greinum en öllu má nú ofgera!  Það virðist vera sem Morgunblaðið, þessi stoð íslenskra fjölmiða, sé virkilega með menn á launum við að kópera fréttir af erlendum fréttasíðum og þýða þær beint og birta á netinu.  Það er varla haft fyrir því að íslenska orðalag eða lesa þýðinguna yfir.  Þágufallsvillur eru algengar, enskt orðalag, innsláttarvillur og málfarsvillur daglegt brauð.  Ætli eitthvað sé lesið yfir þarna?  Svo læðist inn ein og ein innlend frétt eins og sú hér að ofan.  Ekki verið að spá mikið í innihaldið heldur fréttatilkynningin tekin og birt í heild sinni.  Þó er frétt sem halda mætti að væri innlend birt.  Þar kemur fram að Eggert Magnússon muni kaupa West Ham á mánudaginn.  Nei, og þó, fréttin er höfð eftir The Independent (slóðin á fréttina er: http://sport.independent.co.uk/football/premiership/article1993598.ece) og flokkast  þá í flokkinn ,,þýtt og birt".  Ekki hringja í Eggert og spyrja hann um málið.  Frekar bíða eftir að ensku blöðin gera það og taka það svo upp úr þeim og þýða það.  Þá þarf ekki að teygja sig í símann og vesenast við að finna númerið og svona.  Til að kóróna ruglið er fréttin tvisvar á síðunni, með mismunandi fyrirsögn!

Nýjasta fréttin á handboltahluta síðunnar er fréttatilkynning HSÍ um landsliðshóp kvenna.  Tekið úr faxinu og hent á netið. Sú frétt er frá því í fyrradag.  Þar á undan kom frétt um meiðsli Snorra Steins frá því í blaðinu á föstudaginn.  Þar á undan hálfleiksstaðan í leik Fylkis og Fram í bikarnum.  Þar hefur runnið æði á menn og eitthvað verið gert (sennilega lágu erlundu síðurnar niðri tímabundið).  Svo fylgja úrslit og markahæstu menn.  Úrslitaþjónusta!  Í körfuboltahlutanum er svipuð staða.  Úrslit úr leik frá því á föstudag og sitgahæstu menn.  Svo kemur slatti af NBA deildinni því það er miklu einfaldara að kópera og þýða en að leita að einhverju fréttnæmu á Íslandi.  Hins vegar er frétt á forsíðunni um að Sörenstam hafi ekki komist í gegnum niðurskurðinn á lokamóti LPGA mótaraðarinnar ásamt stöðunni í mótinu og upplýsingum um hverjar duttu út.  Ætli síminn hafi logað á ritstjórninni með bónum um að koma með þessar upplýsingar, eða er þetta bara minni vinna en að þurfa að leita að fréttum?  Það þykir kannski ekki í frásögur færandi að Valur vann Hauka í háspennuleik að Ásvöllum í gær í handboltanum?  Eða að Bayern Munchen vann Stuttgart í þýska fótboltanum?  Eða að Sevilla komst á toppinn í spænska fótboltanum í gær?  Eða hafa fréttamennirnir sjálfir engan áhuga á þessum fréttum og setja þær þess vegna ekki á netið?  Getur það verið?  Er metnaðurinn enginn til að halda úti fréttavef sem virkilega er með fréttir en ekki úrslitaþjónuustu?  Ætli það séu til tölur um lestur á þessu öllu saman?  Veit einhver hvort þær þúsundir Íslendinga sem spila golf hafi minnsta áhuga á að vita hvort Sörenstam hafi komist áfram eða ekki?  Það virðist alla vega spila stærri rullu hjá mbl.is en íslenskur handbolti, sem er nú eftir sem áður eina sportið sem við getum eitthvað í!

 

P.S. ég geri mér grein fyrir kaldhæðninni í því að nota blogg mbl.is til að úthúða mbl.is!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Örn Jónsson
Einar Örn Jónsson
Handboltamaður hjá GWD Minden í Þýskalandi. Giftur Birnu Ósk Hansdóttur með hverri hann á soninn Agnar Daða.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband