Leita í fréttum mbl.is

Íþróttir og ofbeldi

Af hverju eru fótboltamenn svona ofbeldisfullir?  Þeir virðast alltaf vera að láta reka sig út af fyrir að kýla, skalla eða sparka í menn beint í kjölfar brots á þeim sjálfum.  Það er fyrir það fyrsta ekkert afskaplega sniðugt að gera ofangreint við aðra menn en í miðjum fótboltaleik er það arfaheimska.  Fótboltamenn eru nú svo sem ekkert annálaðir fyrir ofurgreind en það er einfaldlega hluti af því að vera góður í fótbolta að fá ekki rautt spjald fyrir fávitaskap og leikbann í kjölfarið.

Ég fór að velta þessu fyrir mér áðan eftir að Paul Scholes reyndi að kýla Xabi Alonso og fékk snarlega rautt í kjölfarið.  Það kostar hann 3 leiki í bann á krítísku mómenti á tímabilinu.  Frábærlega sniðugt hjá honum.  Um síðustu helgi fékk Lincoln hjá Schalke 5 leikja bann fyrir að kýla Bernd Schneider í grímuna, eftir leik sem Schalke tapaði.  Í ljósi þess að hann er leikstjórnandi liðsins og þeir eru í góðri stöðu með að tryggja sér fyrsta meistaratitilinn í 50 ár er engin rífandi lukka með þetta hjá þjálfaranum.  Enda var Schalke hvorki haus né sporður á móti HSV í gær án Lincoln.  Svo eru það slagsmálin i Cardiff um síðustu helgi og svo og svo og svo!  Vonandi er enginn búinn að gleyma þessum Frakka (Alsíringi?) sem skeit á feril sinn í kveðjuleiknum í sumar.  Það var nú úrslitaleikur HM.

Þá komum við að upphaflegu spurningunni: Af hverju eru fótboltamenn svona ofbeldisfullir?  Ekki sér maður svona í handbolta.  Af og til í körfubolta og þá aðallega í NBA og gjarnan taka þá allir leikmenn þátt.  Hvað veldur því að fótboltamenn, frekar en leikmenn í öðrum greinum eru alltaf að missa sig og hefna sín á einhverjum sem pirrar þá eða var að brjóta á þeim?  Er það kannski af því handboltamenn vita að þeir geta, og gera reglulega, yfirleitt hefnt sín hressilega næst þegar þeir fara í vörn?  Fá þá tvær mínútur (eða jafnvel ekki) og öllum er sama.  Fótboltamenn geta það nú líka án teljandi vandræða.  Það er allt annað að brjóta illa á manni með boltann en að skalla hann þegar búið er að flauta eða boltinn löngu farinn.  Munurinn er gult eða rautt spjald.  Eru fótboltamenn bara svona illa stilltir að þeir verða að kýla einhvern sem potar í þá og það ekki seinna en samstundis?  Maður hefur nú heyrt margt verra sagt í leikjum en Materazzi á að hafa sagt við Zidane í sumar.  Samt hef ég aldrei séð neinn nema fótboltamann skalla andstæðing í bringuna.

Menn eru alltaf fljótir til að stimpla fótboltabullurnar sem fávita sem skemma fyrir hinum og hafa ekkert með fótbolta að gera.  Hérna í Þýskalandi eru þeir einfaldlega kallaðir hálfvitar í fréttatímum ríkissjónvarpsins.  Enginn kallar þó Lincoln, Zidane, Scholes og alla hina hálfvita opinberlega en þeir skemma þó miklu meira fyrir liðinu og þar af leiðandi áhorfendum sem leggja drjúgan hluta lúsalauna sinna í að elta liðin um allt.  Svo fá þeir milljónir evra og punda fyrir.  Við handboltamenn höfum í rauninni miklu meiri ástæðu til að rasa út.  Við fáum ekki nógu vel borgað til að taka því þegjandi ef einhver pirrar mann endalaust eða brýtur illa á manni.  Fyrir milljón evrur á ári myndi ég jafnvel hlæja ef einhver hrækti á mig í leik.

Kv. Veggurinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Munurinn á handbolta og hinum tveimur íþróttunum er að í handbolta byrja hópslagsmálin um leið og dómarinn flautar til leiks og lýkur 60 mín seinna, reyndar með smá hléi eftir 30 mín. Í hinum tveimur íþróttunum gerist þetta bara í einstaka leikjum í nokkrar mínútur í einu.

Rúnar Birgir Gíslason, 3.3.2007 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Örn Jónsson
Einar Örn Jónsson
Handboltamaður hjá GWD Minden í Þýskalandi. Giftur Birnu Ósk Hansdóttur með hverri hann á soninn Agnar Daða.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 168

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband